Saga

Nightingale

Þróun Nightingale lausnarinnar hófst vorið 2018 sem lítið verkefni hjá sveitarfélaginu Kópavogsbæ. Í byrjun var ætlunin að prófa og staðfesta réttan skilning á aðferðafræði vísitölu félagslegra framfara (e. Social Progress Index SPI). Fyrsta útgáfa lausnarinnar var gagnagrunnur settur upp í MS SQL af einum starfsmanni UT deildar. Í gagnagrunninum voru smíðaðar sýnir (e. views) sem framkvæmdu tölfræðilegan útreikning SPI. Í fyrstu útgáfu var Excel notaður til að birta þróun árangurs. Til að þurfa ekki að viðhalda gögnum beint í gagnagrunninum og einnig til að vera óháð Excel í birtingu árangurs þá var samið við hugbúnaðarhúsið Matrix Software um að skrifa einfalt viðmót á gagnagrunninn og að birta þróun árangurs með línuriti. Lausnin var í kjölfarið kynnt víða og fékk meðal annars nýsköpunarverðlaun árið 2018. Sumarið 2019 voru fengnir þrír sumarstarfsmenn til að vinna að lausninni. Mælaborð barna var þróað í lausninni 2019, en það er samstarfsverkefni Kópavogsbæjar, félags- og barnamálaráðuneytisins og UNICEF á Íslandi. Það mælaborð fékk síðan alþjóðleg verðlaun UNICEF í október 2019 fyrir framúrskarandi lausnir og nýsköpun í nærumhverfi barna. Í framhaldinu lýsti félags- og barnamálaráðuneytið yfir vilja sínum um að nýta Nightingale í að halda utanum sambærilegt mælaborð fyrir allt Ísland. Samstarfssamningur var gerður og ákveðið að endurskrifa lausnina í opnum lagskiptari kóða með því að nýta PostGres gagnagrunn, Python REST API, C# og JavaScript. Sextán sumarstarfsmenn voru ráðnir sumarið 2020 í þá vinnu. Kópavogsbær opnaði fyrir aðgang félags- og barnamálaráðuneytisins í janúar 2021 og tíu íslensk sveitarfélög, sem nýta lausnina til að fylgjast með mælaborði barna. Lausnin er nú skýjalausn og virkar eins og þjónusta í skýinu (SAAS lausn). Lausnin er opinn hugbúnaður og er unnin í opnu samstarfi við alla notendur.